Innlent

Vilja fjarlægja blómaker fyrir utan bandaríska sendiráðið

Borgarfulltrúi vill blómaker í burtu og bendir á að þau ógni líka öryggi nágrannanna.
Borgarfulltrúi vill blómaker í burtu og bendir á að þau ógni líka öryggi nágrannanna.

Á fundi umhverfis- og samgönguráðs í gær, þriðjudaginn 28. september, var tekin fyrir tillaga Þorleifs Gunnlaugssonar, fulltrúa VG, þess efnis að bandaríska sendiráðinu verði gert að fjarlægja blómaker á bifreiðastæðum og hindranir á gangstéttum fyrir framan húsið.

Í tilkynningu kemur fram að ekki fáist betur séð en að heimild sendiráðsins vegna umræddra hindrana hafi runnið út 14. september 2005. Afgreiðslu tillögunnar var frestað til næsta fundar.

Þá segir ennfremur í tillögunni að ef sendiráð Bandaríkjanna telji öryggi sínu ógnað með þessum ráðahag er bent á það að öryggi íbúa við götuna er jafnframt í húfi og því best fyrir alla að sendiráðið kæmi sér fyrir á rúmgóðri lóð þar sem rými fyrir öryggisráðstafanir rúmuðust innan lóðamarka.

Tillagan var þessi:

Umhverfis- og samgönguráð samþykkir að bandaríska sendiráðinu,

Laufásvegi 21-23, verði gert að fjarlægja blómaker á bifreiðastæðum

og hindranir á gangstéttum fyrir framan húsið innan mánaðar.

Jafnframt verði skoðað hvort ekki megi draga úr eða fjarlægja með öllu

hraðahindranir á götunni sem settar voru upp að beiðni sendiráðsins.

Greinargerð:

Á fundi samgöngunefndar Reykjavíkur, 14. september 2004 var samþykkt

tillaga gatnamálastjóra frá 10. september 2004 varðandi erindi

bandaríska sendiráðsins frá 2. febrúar 2004 um að koma fyrir

blómakerum á merktum bílastæðum sendiráðsins. Í samþykktinni fólst

jafnframt sú ákvörðun að umferð um gagnstéttina yrði hindruð auk

þess sem hraðahindrunum yrði komið fyrir á götunni.

Samþykktin gilti í eitt ár eða til 14. september 2005 og átti þá að koma

til endurskoðunar. Ekki verður séð í gögnum sem vistuð eru í

Skjalaveri borgarinnar við Höfðatorg að endurskoðun hafi átt sér stað

en engar málefnalegar ástæður eru fyrir hindrun sem þessari á

almannarými frekar en við önnur sendiráð.

Telji sendiráð Bandaríkjanna öryggi sínu ógnað með þessum ráðahag er

bent á það að öryggi íbúa við götuna er jafnframt í húfi og því

best fyrir alla að sendiráðið kæmi sér fyrir á rúmgóðri lóð þar sem

rými fyrir öryggisráðstafanir rúmuðust innan lóðamarka.

Óski bandaríska sendiráðið þess mun Framkvæmda- og eignasvið sjá um

umræddar framkvæmdir á kostnað sendiráðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×