Innlent

Pólstjörnufangi í flugnámi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Fangar eru innan veggja Litla Hrauns þegar þeir stunda nám sitt. Mynd/ Vilhelm.
Fangar eru innan veggja Litla Hrauns þegar þeir stunda nám sitt. Mynd/ Vilhelm.
Pólstjörnufanginn Guðbjarni Traustason stundar flugnám í fangelsinu á Litla Hrauni þessi misserin, samkvæmt heimildum Vísis. Guðbjarni var einn þeirra sem var dæmdur í fangelsi fyrir smygl á 100 kílóum af fíkniefnum í Pólstjörnumálinu svokallaða á haustmánuðum árið 2007. Heimildir Vísis herma að um bóklega hluta flugnámsins sé að ræða, en ekki eiginlega flugtíma.



Fangar fá ekki að taka flugtíma


Margrét Frímannsdóttir, forstöðumaður Fangelsisins að Litla Hrauni, segist ekki geta tjáð sig um málefni einstakra fanga þegar Vísir spyr hana út í nám Guðbjarna. Hún staðfestir hins vegar að fangar eigi þess ekki kost að sækja flugtíma frá fangelsinu. Hins vegar hafi örfáir fangar fengið að stunda fjarnám sem þeir stundi þá innan veggja fangelsisins. Í undantekningartilfellum fái þeir að sækja próf utan fangelsisins en þá séu þeir í fylgd tveggja fangavarða.

Margrét segir að það virðist vera sá misskilningur kominn á kreik að nokkrir fangar stundi nám utan fangelsisins. Það sé ekki rétt. Einn fangi hafi fengið að stunda nám utan veggja fangelsisins. Hann hafi numið við Fjöbrautaskóla Suðurlands. Í öllum öðrum tilfellum hafi fangar stundað námið frá fangelsinu.



Námið er mikil hvatning


Margrét segir að námið sé föngunum mikil hvatning. Það gleymist stundum að stór hluti af föngum séu strákar sem hafi flosnað upp úr námi í grunnskóla. Þá hafi sex fangar stundað fjarnám við Verzlunarskóla Íslands í fyrra. „Það útskrifðust tveir stúdentar í desember sem höfðu stundað nám hérna," segir Margrét. Þeir hafi útskrifast frá Fjölbrautaskóla Suðurlands. Annar þeirra hafi fengið viðurkenningu fyrir frábæran námsárangur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×