Innlent

Nýbökuð móðir með brjóstabarn á Þjóðfundi

Nýbökuð móðir hefur tilkynnt komu sína og fær ungbarnið til sín í hléum á fundinum til að gefa því að drekka.
Nýbökuð móðir hefur tilkynnt komu sína og fær ungbarnið til sín í hléum á fundinum til að gefa því að drekka. Mynd úr safni
Þjóðfundur um stjórnarskrá Íslands verður haldinn næstkomandi laugardag 6. nóvember í Laugardalshöll. Um 1000 þáttakendur eru skráðir á fundinn en þeir voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Hlutverk þeirra er að tjá hugmyndir sínar og skoðanir um stjórnskipan landsins og stjórnarskrá og endurskoðun á henni.

Kynjaskipting þátttakenda er nánast jöfn og dreifingin þeirra er nokkuð í samræmi við aldurs og búsetudreifingu þjóðarinnar. Elsti þátttakandi á þjóðfundi er 89 ára, sá yngsti verður 18 ára nokkrum dögum fyrir kosningar til stjórnlagaþings, nokkur pör eða hjón voru boðuð, fyrir tilviljun, til fundarins og nýbökuð móðir hefur tilkynnt komu sína en fær ungbarnið til sín í hléum á fundinum til að gefa því að drekka.

Undirbúningur fyrir fundinn er á lokastigi, en tæplega tvö hundruð manns koma að honum með einum eða öðrum hætti. Verið er að ljúka þjálfun 128 lóðsa eða borðstjóra en hlutverk þeirra er að leiða umræður á fundinum, tryggja að þátttakendur hafi jöfn tækifæri til að tjá sig og koma hugmyndum þeirra í réttan farveg.

Lóðsar eru nú að hringja í þátttakendur til að lýsa tilhögun fundarins. Þátttakendur eru eftirvæntingarfullir og fjöldi þeirra hefur þegar lesið stjórnarskrána sem þeir fengu nýlega senda í pósti.

Fyrstu fréttir af Þjóðfundi 2010 og viðfangsefni hans eru væntanlegar strax um hádegisbil á laugardeginum. Á laugardagskvöldið, eftir fundinn, verður unnið úr niðurstöðum hans með það í huga að geta kynnt fyrstu niðurstöður á sunnudag.

Boðað er til blaðamannafundar sunnudaginn 7. nóvember kl. 16 á Grand hótel. Þar mun stjórnlaganefnd kynna frumniðurstöður Þjóðfundar 2010. Lögum samkvæmt mun stjórnlaganefnd síðan vinna áfram úr niðurstöðum fundarins og afhenda þær stjórnlagaþingi þegar það kemur saman í febrúar 2011.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×