Lífið

Brothers gengur vel í miðasölu

Ánægður Sigurjón er ánægður með árangur Brothers en hún mun sennilega ná þrjátíu milljóna dollara markinu í miðasölu í Bandaríkjunum. Myndin verður frumsýnd í Bretlandi um helgina.
Ánægður Sigurjón er ánægður með árangur Brothers en hún mun sennilega ná þrjátíu milljóna dollara markinu í miðasölu í Bandaríkjunum. Myndin verður frumsýnd í Bretlandi um helgina.

„Við settum okkur það markmið að ná þrjátíu millljón dollara markinu og mér sýnist við vera að ná því," segir Sigurjón Sighvatsson, einn af framleiðendum kvikmyndarinnar Brothers en hún hefur fengið prýðilega dóma í bandarískum fjölmiðlum þótt myndin hafi ekki náð neinum Golden Globe-styttum á sunnudagskvöldið.

„Það voru vissulega vonbrigði, maður hélt að U2 myndi nú rúlla þessu upp en svona er þetta," segir Sigurjón en írsku rokkrisarnir voru tilnefndir fyrir lag kvikmyndarinnar, Winter. Þá var Tobey Maguire einnig tilnefndur sem besti karlleikari í aukahlutverki en sá á eftir styttunni til Jeff Bridges.

Sigurjón kveðst vera nokkuð sáttur við aðsóknina en segir að mikið vilji alltaf meira. „Myndin fékk mjög góða dóma og aðsóknin var mjög góð. En svo kom Avatar og hún gerði eiginlega það sem enginn bjóst við að myndi gerast, hún gleypti gjörsamlega alla aðsókn," útskýrir Sigurjón.

Brothers skartar auk Maguire þeim Jake Gyllenhaal og Natalie Portman í aðalhlutverkum en myndin verður frumsýnd í Bretlandi um helgina. Sigurjón kveðst bjartsýnn á gott gengi enda er írskur leikstjóri myndarinnar, Jim Sheridan, í miklum metum þar, að ekki sé talað um Bono og félaga.

„Við höfum fengið mjög góð viðbrögð á forsýningum og ég held að myndin eigi eftir að ganga vel í Evrópu, þetta er ádeila á Ameríku og Ameríkanar eru ekkert sérstaklega mikið fyrir að láta deila á sig. Evrópubúar kunna hins vegar vel að meta slíkar myndir."- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×