Innlent

Nefnd um erlenda fjárfestingu klofnaði

Magma Energy hefur nú 98,5 prósenta eignarhlut í HS Orku
Magma Energy hefur nú 98,5 prósenta eignarhlut í HS Orku
Meirihluti nefndar um erlenda fjárfestingu hefur komist að þeirri niðurstöðu að fjárfesting Magma Energy Sweden AB á 52,35 prósenta viðbótarhlut í HS Orku hf. gangi ekki gegn lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Magma Energy hefur því, að öðru óbreyttu, eignast 98,5 prósenta hlut í fyrirtækinu. Minnihluti nefndarinnar greiddi atkvæði gegn þessari niðurstöðu.

Samkvæmt lögum um erlenda fjárfestingu er fimm manna nefnd, nefnd um erlenda fjárfestingu, kjörinni af Alþingi ætlað að fylgjast með því að ákvæðum laga um takmarkanir á fjárfestingu erlendra aðila sé framfylgt.

Þrír meðlimir nefndarinnar töldu fjárfestinguna samræmast lögum en fulltrúar Vinstri grænna og Borgarahreyfingar voru því ósammála.

Magma Energy er kanadískt fyrirtæki en stofnaði eignarhaldsfélag í Svíþjóð utan um kaupin í HS Orku. Samkvæmt lögunum er fyrirtækjum utan EES svæðisins óheimilt að fjárfesta í orkuiðnaði á Íslandi. Álitamálið var hvort sænska félagið væri kaupandi eða hvort líta bæri á móðurfélagið sem kaupandann.

Nefndinni barst tilkynning frá HS Orku um kaupin þann 25. maí síðastliðinn og hefur nú fjallað um þau. Niðurstaðan nú er sú sama og nefndin komst að í mars síðastliðnum þegar hún fjallaði um málið. - mþl



Fleiri fréttir

Sjá meira


×