Lífið

Menn orðsins saman á svið

Erpur Eyvindarson og Bjartmar Guðlaugsson eru góðir vinir en koma í fyrsta skipti saman fram á tónleikum næstkomandi þriðjudag. Fréttablaðið/anton
Erpur Eyvindarson og Bjartmar Guðlaugsson eru góðir vinir en koma í fyrsta skipti saman fram á tónleikum næstkomandi þriðjudag. Fréttablaðið/anton
„Ég er mikill aðdáandi Bjartmars og tel okkur eiga meira sameiginlegt en marga grunar,“ segir Erpur Eyvindarson rappari en hann og tónlistarmaðurinn Bjartmar Guðlaugsson ætla að leiða saman hesta sína næstkomandi þriðjudag og halda tónleika á Café Rosenberg.

„Ég tel okkur Bjartmar báða vera menn orðsins, þó að við séum með mismunandi undirspil. Ekki hræddir við að segja okkar skoðanir, sem eru kannski sterkari en hjá fólki flestu,“ segir Erpur en hann hefur löngum verið í svokölluðum Bjartmarsklúbbi með ekki minni mönnum en Helga Seljan, Andra Frey Viðarssyni og flestum meðlimum Mínussveitarinnar.

„Við erum miklir aðdáendur Bjartmars og teljum hann vera mann fólksins á tímum þegar allt er til sölu. Hann tók ekki þátt í þessu góðærishjóli og beið þangað til öllu því linnti fyrir austan,“ segir Erpur og fer ekki leynt með aðdáun sína á tónlistarmanninum góðkunna. Sú aðdáun er gagnkvæm ef marka má Bjartmar, sem segir Erp vera greindan dreng og góðan vin. „Við erum mjög líkir og okkur finnst báðum gaman að glíma við orð. Svo skiljum við hvor annan vel,“ segir Bjartmar en hann lofar góðu kvöldi á þriðjudaginn vegna þess að þeir eigi eftir að skemmta sér svo vel saman á sviðinu.

Erpur segir þá félagana vera að æfa saman atriði en vill ekki gefa upp nánari upplýsingar um það.

„Það kemur í ljós, ég hvet bara alla til að mæta. Bjartmar ætlar að mæta með kertaljós og reykelsi og ég kem með derhúfuna. Þetta verður notaleg stund.“- áp





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.