Innlent

Telur óvíst hvort stjórnin lifi

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir
„Það verður bara að fá að koma í ljós," segir Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, spurð hvort hún telji að ríkisstjórnin muni lifa Magma-málið svokallaða af. Þrír þingmenn flokksins, Guðfríður Lilja, Atli Gíslason og Þuríður Backman, hafa um helgina kveðið svo fast að orði að þeir geti ekki - eða tæpast - stutt samstarfið við Samfylkinguna nema kaup Magma á HS orku verði stöðvuð.

„Ég ætla hins vegar að leyfa mér að vera bjartsýn að sinni, einfaldlega vegna þess að flokkarnir hafa báðir talað fyrir því að verja beri auðlindir landsins," segir Guðfríður Lilja. Pólitískur vilji sé allt sem þarf til að vinda ofan af málinu og hann hafi skort hingað til.

Ráðherranefnd fimm ráðherra sem unnið hefur að lausn málsins mun fara yfir málin á hádegi í dag með þingflokksformönnum stjórnarflokkanna og fulltrúum þeirra í iðnaðarnefnd.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, kveðst undrandi á því að þingmenn VG skuli vera með yfirlýsingar af þessu tagi vitandi það að ráðherranefndin sé að störfum. Heillavænlegra hefði verið að leyfa ríkisstjórninni að klára málið og kynna það.

„Það er samstarfinu ekki til framdráttar þegar einstakir þingmenn VG stíga fram og hóta því að hætta stuðningi við þessa ríkisstjórn," segir hún. Það sé hins vegar fyrst og fremst innanflokksmál VG. Magma-málið sé hins vegar erfitt fyrir báða flokka. Að hennar mati er það aukaatriði hvort einkaaðilarnir sem eiga nýtingarrétt á orkunni séu innlendir eða erlendir. „Aðalatriðið er að einkafjármagn nái ekki meirihluta," segir hún. Um það þurfi að setja lög.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætis­ráðherra var ekki til viðtals í gær vegna málsins og ekki náðist í Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×