Lífið

Umdeildi hrokagikkurinn Kanye

Rapparinn umdeildi Kanye West gefur út sína fimmtu hljóðversplötu eftir helgi. Hún hefur nú þegar fengið fimm stjörnur í Rolling Stone.
Rapparinn umdeildi Kanye West gefur út sína fimmtu hljóðversplötu eftir helgi. Hún hefur nú þegar fengið fimm stjörnur í Rolling Stone.

Rapparinn umdeildi Kanye West gefur út sína fimmtu plötu eftir helgi. Gripurinn nefnist My Beautiful Dark Twisted Fantasy og á meðal gesta eru Bon Iver, Jay-Z, Rihanna og John Legend.

Fimmta hljóðsversplata bandaríska rapparans Kanye West, My Beautiful Dark Twisted Fantasy, kemur út eftir helgi. Justin Vernon, forsprakki Bon Iver, er í gestahlutverki í tveimur lögum og á meðal annarra gesta eru Jay-Z og RZA. Auk þess kemur stórskotalið við sögu í laginu All Those Lights, þar á meðal Rihanna, Alicia Keys, Elton John og Fergie. Söngvarinn John Legend er einnig gestur í því lagi og einu til viðbótar.

Kanye West hefur verið duglegur við að vekja á sér athygli og koma sér um leið í vandræði með ummælum sínum og hegðun. Árið 2005 sakaði hann þáverandi Bandaríkjaforseta, George W. Bush, um að þykja ekki vænt um þeldökkt fólk vegna viðbragða hans við fellibylnum Katrinu. Hann baðst afsökunar á ummælunum í spjallþætti fyrir skömmu og Bush fyrirgaf honum en kallaði hann reyndar Conway West. Rapparinn hefur tvisvar ruðst inn á sviðið á myndbandaverðlaunum MTV-stöðvarinnar.

Árið 2006 fór hann upp á svið þegar hljómsveitin Justice var að taka á móti verðlaunum og sagðist sjálfur hafa átt besta myndbandið. Þremur árum síðan ruddist hann aftur upp á svið þegar Taylor Swift tók á móti myndbandaverðlaunum. Rapparinn var ósáttur og taldi að vinkona sín Beyonce Knowles ætti sigurinn skilinn fyrir myndbandið við lagið Single Ladies (Put a Ring on It).

West hefur stundum verið sagður hrokafullur og leiðinlegur og hann gerir sér sjálfur grein fyrir því. „Ég ætla að draga úr viðtölum á næstunni til að reyna að selja plötuna mína. Ég get ekki framkvæmt einhver töfrabrögð sem fá fólk til að líka við mig. Ég hef gert mistök og ég hef þurft að gjalda fyrir þau,“ skrifaði rapparinn á Twitter-síðu sína. „Engar fleiri Bush-spurningar, Taylor-spurningar eða spurningar um ástarsambönd mín. Það er ekki hægt að draga tónlistina í efa. Ég er skapandi manneskja. Ég er ekki góð stjarna en ég er frábær listamaður. Ég er orðinn þreyttur á að nota frægð mína til að selja listina mína.“

Það er rétt hjá hinum 33 ára West, tónlistin talar sínu máli og þar hefur hann náð frábærum árangri. Hann hefur hlotið fjórtán Grammy-verðlaun á ferli sínum, sem hófst 2004 með plötunni The College Dropout. Áður hafði hann vakið athygli sem upptökustjóri á plötu Jay-Z, The Blueprint. Plötur West hafa selst í milljónum eintaka og margar hafa þær hlotið góða dóma gagnrýnenda, þar á meðal nýja platan sem Rolling Stone splæsti á fimm stjörnum og lýsti sem besta verki kappans.

West er með aðra plötu í undirbúningi í samstarfi við Jay-Z sem kemur út á næsta ári. Hún er hluti af verkefninu GOOD Friday, þar sem West gefur út eitt lag á hverjum föstudegi. Verkefnið hófst 20. ágúst síðastliðinn og stendur yfir til jóla.

freyr@frettabladid.is

Á heimasíðu Kanye má sjá 40 mínútna myndina Runaway sem hann leikstýrði.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.