Innlent

Mengunarslys í Eskifirði: Ekki of seint brugðist við

SB skrifar
Blóðvökvi úr fiski blandaðist drykkjarvatni.
Blóðvökvi úr fiski blandaðist drykkjarvatni.

Bæjaryfirvöld í Fjarðarbyggð segja ekki hafa verið brugðist of seint við mengunarslysi sem varð á sunnudaginn fyrir viku þegar löndunarvökvi úr skipi blandaðist drykkjarvatni bæjarbúa. Bréf var sent til bæjarbúa í gær vegna málsins.

„Alvarleiki málsins kom ekki í ljós fyrr en í gær," segir Þorsteinn Kristjánsson, forstjóri Eskju en það var við löndun skips á vegum félagsins sem mengunarslysið átti sér stað. Í tilkynningu frá Eskju segir að starfsmanni Tandrabergs ehf hafi orðið á mistök sem leiddu til þess að löndunarvatnið blandaðist neysluvatni bæjarins.

Spurður hvað sé í löndunarvatni skips segir Þorsteinn það aðallega blóðvatn úr fiski. „Það var skolað úr kerfinu og bærinn gerður vatnslaus og þar með héldu bæjaryfirvöld að þetta væri í lagi, svo var farið að rannsaka þetta í gær og þá kom í ljós að svo var ekki."

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðarbyggðar, segir bæinn ekki hafa dregið lappirnar í þessu máli. Eftir mengunarslysið hafi mælingar sýnt að engin hætta væri á ferðum en það hefði hins vegar breyst í gær þegar hættulegt magn kólígerla fundust í drykkjarvatni. Það væru hins vegar ekki saurkólígerlar sem væru afar hættulegir.

„Við búumst við að klára hreinsun um helgina," segir Jón Björn en þangað til er bæjarbúum gert að sjóða drykkjarvatn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×