Innlent

Leitar leiða til að hreinsa mannorð sitt

„Ég er bugaður maður, þetta er mér afar þungbært, og það er mikil sorg í hjarta mínu," segir Gunnar Þorsteinsson, forstöðumaður Krossins. „Ég verð að leita allra úrræða til að hreinsa mannorð mitt, og það mun ég gera."

Hann segir ekkert hæft í ásökunum kvennanna, hann hafi ekki brotið gegn þeim. Spurður hvort þær séu að segja ósatt segir hann: „Það er auðvitað eðlileg niðurstaða, að sjálfsögðu, þessar ásakanir eru tilhæfulausar."

Hann hafnar því alfarið að hann hafi reynt að þagga málið niður, eins og fram kemur í bréfi kvennanna. Hann hafi þvert á móti viljað fá ásakanirnar upp á yfirborðið svo hann geti glímt við þær.

Gunnar segist ekki hafa tekið ákvörðun um hvort hann muni stíga til hliðar sem forstöðumaður Krossins í kjölfar ásakananna.

„Þetta mál hefur safnaðarpólitískan vinkil. Þetta er skipuleg aðför sem unnið hefur verið að um nokkurt skeið," segir Gunnar. Hann segir að á bak við aðförina standi hópur manna sem komið hafi saman „undir einhverskonar formerkjum kristni", en vill ekki segja hverjir séu í þeim hópi.

Spurður hvers vegna hópur manna ætti að standa að baki slíkum ásökunum segir hann markmiðið að nota ávirðingarnar til þess að berja á sér og „nota sem veiðistöng inn í okkar hóp".Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.