Innlent

Bæjarstjórar misstu af veiði í Elliðaánum

Við Sjávarfoss í Elliðaánum.
Við Sjávarfoss í Elliðaánum. Fréttablaðið/GVA

Orkuveita Reykjavíkur nýtti ekki veiðileyfi sem frátekin voru fyrir fyrirtækið í Elliðaánum í gær heldur lét leyfin í hendurnar á Stangaveiðifélagi Reykjavíkur.

„Sveitarstjórum á veitusvæðinu sem Orkuveitan þjónar hefur verið boðið til veiða í Elliðaánum. Nú er bara staðan sú að það er ekki búið að ráða sveitarstjóra í sumum sveitarfélögunum og það var ákveðið að sleppa þessu þetta árið - í það minnsta," útskýrir Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitunnar.

Samkvæmt upplýsingum af skrifstofu Stangaveiðifélagsins var hinum tólf veiðileyfum gærdagsins ráðstafað til félagsmanna á biðlista sem við þetta nánast tæmdist. Þannig að ákvörðun Orkuveitunnar um að gefa frá sér veiðileyfin var kærkomin hjá Stangaveiðifélaginu.

Orkuveitan á einn frátekinn dag til viðbótar í Elliðaánum í sumar. „Hinn dagurinn er frátekinn fyrir stjórn Orkuveitunnar og ég geri ráð fyrir því að hann verði nýttur. Ég á bara eftir að ræða það við stjórnina," segir Hjörleifur um ráðstöfun veiðileyfanna þann dag sem eftir stendur.

Samkvæmt samningi á Orkuveitan frátekna áðurnefnda tvo daga á laxveiðitímabilinu í Elliðaánum. Reykjavíkurborg á rétt á fimm veiðidögum en var búin að ákveða fyrirfram að nýta þrjá þeirra í sumar. Tveir af þessum þremur dögum voru ætlaðir fyrir borgarfulltrúa og embættismenn.

Samkvæmt ákvörðun nýs borgarstjórnarmeirhluta voru þeir hins vegar á endanum teknir undir veiðar fyrir svokallaðar samfélagshetjur sem almennir borgarar tilnefna. Fyrri dagurinn var á þriðjudag en sá síðari verður á þriðjudag í næstu viku. Þess má geta að samfélagshetjurnar lönduðu alls 33 löxum á þriðjudag. Mörgum þeirra var sleppt aftur enda má aðeins hirða tvo laxa á hvert leyfi sem gildir í hálfan dag.

„Þriðji dagurinn hefur verið fyrir fyrrverandi og núverandi borgarstjóra og hann verður með hefðbundnum hætti," segir Hjörleifur Kvaran.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×