Innlent

Elsta félag á Íslandi er 195 ára

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Á morgun fagnar Hið íslenska biblíufélag 195 ára afmæli. Stofnfundur þess var haldinn þann 10. júlí árið 1815 á heimili sr. Geirs Vídalín biskups en biskupsgarður var þá að Aðalstræti 10 en það hús stendur enn.

Í fréttatilkynningu frá Hinu íslenska biblíufélagi segir að félagið teljist af þessum sökum elsta starfandi félag á Íslandi. Allt frá stofnun hafi meginmarkmið þess verið að gera íslensku þjóðinni kleift að eignast Biblíuna á eigin tungumáli. Í upphafi 19. aldar hafi mikil hallæri gengið yfir þjóðina og ekkert tækifæri gefist til þess að leggja fjármuni í kostnaðarsama og flókna útgáfustarfsemi um áratuga skeið. Með stofnun félagsins og öflugum stuðningi Hins breska og erlenda biblíufélags, hafi grettistaki verið lyft og þúsundum eintaka af Biblíunni og Nýja testamentinu dreift um öll héruð landsins, hvort sem um gjafir var að ræða eða til sölu.

Þann 1. júlí síðastliðinn tók nýr framkvæmdastjóri til starfa við Hið íslenska biblíufélag. Það er Stefán Einar Stefánsson guðfræðingur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×