Læknastarfið er sveipað virðuleika og löngu námi en þó hafa ekki allir læknar legið yfir námsbókum alla sína hunds- og kattartíð því þeir eru þónokkrir sem hafa getið sér gott orð á tónlistarsviðinu.
Haukur Heiðar Hauksson, söngvari einnar vinsælustu hljómsveitar Íslands um þessar mundir, Diktu, er læknir og útskrifaðist sem slíkur 2008. Hann á ekki langt að sækja áhugann á lækningum og tónlist því faðir hans, Haukur Heiðar Ingólfsson, er líka læknir og tónlistarmaður, spilaði mikið með Ómari Ragnarssyni á árum áður og inn á fjölda hljómplatna. „Það hefur gerst að ég hafi hitt sjúkling sem kvöldið áður var að horfa á mig á tónleikum. Það er kannski svolítið skrýtið," sagði Haukur í viðtali við Læknablaðið fyrir skemmstu.

En þeir feðgar eru ekki einu læknarnir sem hafa lagt stund á tónlistina. Heimir Sindrason hefur samið ófá lög í Eurovision-keppnir, gefið út plötur og var meðal annars liðsmaður dúettsins Heimir og Jónas. Hans þekktasta lag er sennilega hinn sígildi slagari Hótel Jörð sem Heimir samdi við samnefnt ljóð Tómasar Guðmundssonar.




Þá er ónefnd Eva Ásrún Albertsdóttir, sem gerði það gott á árum áður í poppinu og margir Íslendingar þekkja úr Eurovision-keppnum, en hún er ljósmóðir.
Ekki má heldur gleyma Páli Torfa Önundarsyni lækni, sem hefur spilað á gítar með Diabolus in Musica og Six-pack Latino. Þá er ónefndur í þessari upptalningu nýjasti popp-læknirinn, Helgi Júlíus Óskarsson, sem sendi nýverið frá sér sína fyrstu plötu, Sun for a Lifetime.
freyrgigja@frettabladid.is