Snjóskaflinn í Gunnlaugsskarði í Esjunni er horfinn samkvæmt upplýsingum frá Páli Bergþórssyni, fyrrverandi Veðurstofustjóra. Þar með er Esjan orðin snjólaus. Páll segir að þetta sé tíunda sumarið í röð sem skaflinn hverfi. Meira en 150 ár séu liðin frá þvi að skaflinn hverfur svo mörg sumur í röð.
Páll segir að skaflinn hverfi fyrr í ár en mörg sumur á undan. Það sé vegna þess að veturinn hafi verið hlýr og vorið hlýtt. Páll segir bein tengsl vera á milli þess hvort skaflinn hverfi úr Esjunni og lofthita á Íslandi. Það hafi mælarnir á Stykkishólmi meðal annars sýnt.
Þetta sé allt mikilvægt fyrir hagsögu Íslands því að arður landbúnaðarins aukist um 30% þegar að hitinn hækki um eina gráðu. Þetta hafi einnig áhrif á sjávarútveginn því að hitinn hafi áhrif á þörunga og fiskgengd aukist þegar að hitinn hækki um eina gráðu.
Snjórinn horfinn úr Gunnlaugsskarði
Jón Hákon Halldórsson skrifar
