Lífið

Texasbúi verður með tvenna tónleika

Jóhann Kristinsson, Lára Rúnarsdóttir og Danny Malone spila á Rosenberg. fréttablaðið/stefán
Jóhann Kristinsson, Lára Rúnarsdóttir og Danny Malone spila á Rosenberg. fréttablaðið/stefán
Danny Malone frá Texas í Bandaríkjunum heldur tvenna tónleika á Cafe Rosenberg, í kvöld og annað kvöld. Einnig stígur á svið Jóhann Kristinsson, sem kynntist Malone á lagahöfundanámskeiði í Árósum á vegum tónlistarhátíðarinnar Spot.

„Við vorum sjö frá Norðurlöndunum og svo fimm Texasbúar. Við vorum öll dregin saman í kastala sem er notaður sem listaháskóli. Við vorum þar í þrjá daga og útkoman var 23 lög,“ segir Jóhann.

Malone hefur fengið mikið lof vestanhafs fyrir tónleika sína og þykir mjög góður lagahöfundur. Hrósið í hans garð kemur Jóhanni ekki á óvart. „Ég sá sólótónleikana hans á Spot og þeir voru alveg magnaðir.“

Jóhann og Malone hafa samið tvö lög saman og vonast til að taka upp stutta plötu meðan á dvöl þess síðarnefnda á Íslandi stendur en Texasbúinn er á leiðinni í tónleikaferðalag um Evrópu. „Það er mikill heiður að fá að vinna með honum. Ég hafði ekki hugmynd um hver þetta var áður en ég hitti hann en hann kom mér mjög mikið á óvart. Ég var líka að heyra að hann hefði spilað með einu af átrúnaðargoðunum mínum, Lou Barlow,“ segir Jóhann en Barlow er fyrrverandi liðsmaður Dinosaur Jr., Sebadoh og Folk Implosion. Jóhann hefur sjálfur gefið út eina stóra plötu, Call Jimmy, sem kom út fyrir tveimur árum.

Enkidu og Jóhann spila á fyrra kvöldinu á Rosenberg og Jóhann og Lára Rúnarsdóttir á því seinna. Tónleikarnir hefjast kl. 22 og kostar 1.000 krónur inn.- fb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.