Ríkislögreglustjóri hefur gefið út nýtt skipurit fyrir efnahagsbrotadeild embættisins sem gerir ráð fyrir að tveir saksóknarar starfi á rannsóknar- og ákærusviði deildarinnar. Eins og Vísir greindi frá í vor hefur Sigríði Elsu Kjartansdóttur, sem skipuð er saksóknari hjá embætti ríkissaksóknara, verið falið að gegna starfi saksóknara við efnahagsbrotadeild. Þá hefja fleiri nýir starfsmenn störf við deildina á næstunni.
Á vef lögreglunnar segir að á síðustu misserum hafi tíu lögreglumenn hjá ríkislögreglustjóra horfið til starfa hjá sérstökum saksóknara, þar af fimm tímabundið. Í þessum hópi séu átta lögreglufulltrúar sem hafi áralanga reynslu af störfum við efnahagsbrotarannsóknir.
Til að mæta þessu hafi starfsmenn annarra deilda hjá ríkislögreglustjóra verið færðir í efnahagsbrotadeild auk þess sem lausar stöður lögreglumanna og sérfræðinga með reynslu úr viðskiptalífinu hafi verið auglýstar lausar til umsóknar. Verið sé að ráða í þær stöður.
Breytingar hjá efnahagsbrotadeild

Tengdar fréttir

Sigríður Elsa til Ríkislögreglustjóra
Sigríður Elsa Kjartansdóttir lögfræðingur hefur verið skipuð saksóknari hjá efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra.