Innlent

Notuðu eldvarnaverkefni sem yfirskin en töluðu af sér í síma

Jónas Ingi Ragnarsson, fremstur á myndinni, á leið til aðalmeðferðar í Héraðsdómi Reykjaness í gær. Tindur Jónsson fylgir í humátt á eftir með sólgleraugu og hulið andlit.Fréttablaðið/gva
Jónas Ingi Ragnarsson, fremstur á myndinni, á leið til aðalmeðferðar í Héraðsdómi Reykjaness í gær. Tindur Jónsson fylgir í humátt á eftir með sólgleraugu og hulið andlit.Fréttablaðið/gva

Dómsmál Jónas Ingi Ragnarsson, oft kenndur við „líkfundarmálið", pantaði hráefni sem nota má við amfetamínframleiðslu undir því yfirskini að það væri fyrir þróun eldvarnaefnis, sem hann og Tindur Jónsson unnu saman að.

Aðalmeðferð í máli Jónasar Inga og Tinds hófst í héraðsdómi Reykjaness í gær. Þeir eru ákærðir fyrir að hafa staðið að framleiðslu fíkniefna í iðnaðarhúsnæði í Hafnarfirði sumarið 2008. Í húsnæðinu fundust meðal annars 38 kíló af efninu P-2-NP, sem notað er til að búa til milliefnið P-2-P, sem notað er við framleiðslu á amfetamíni og metamfetamíni.

Jónas Ingi og Tindur neita báðir að hafa ætlað að framleiða fíkniefni. Við skýrslutöku í gær sagðist Jónas Ingi hafa verið þjónustu­aðili fyrir fíkniefnaframleiðendur, það er útvegað mönnum í „þessum iðnaði", eins og verjandi hans komst að orði, löglegt hráefni og búnað til fíkniefnaframleiðslu, svo sem mjólkursykur, vogir, lampa og fleira. Á vordögum 2008 hafi aðili, sem Jónas neitar að nefna, beðið hann um að útvega sér efnið P-2-P. Efnið er eftirlitsskylt. Taldi Jónas því að erfitt yrði að flytja það inn til landsins og ákvað að búa það til sjálfur og selja fyrrnefndum aðila. Hann hafi talið í mesta lagi um brot á reglugerð að ræða en ekki lagabrot. Kvaðst hann hafa vitað að hægt væri að nota P-2-P til framleiðslu á amfetamíni en ekki spurt kaupandann til hvers hann ætlaði að nota það.

Tindur, sem hefur lokið einu ári í efnafræði­ við Háskóla Íslands, fór upphaflega að vinna fyrir Jónas Inga með það í huga að aðstoða hann við að framleiða eldvarnaefni. Jónas Ingi bar fyrir rétti að þáttur Tinds í málinu hefði verið „takmarkaður". Ekki hafi liðið á löngu þar til Jónas Ingi hefði beðið Tind um aðstoð við samsetningu tækja sem hann notaði við framleiðslu á P-2-P. Hann hefði ekki sagt Tindi hvað hann ætlaði að framleiða. Tindur hefði þó fljótlega áttað sig á hvaða efni væri um að ræða.

Í skýrslutöku kvaðst Tindur hafa gert sér grein fyrir að framleiðsla á P-2-P væri eftirlitsskyld en ekki vitað að nota mætti efnið til að framleiða fíkniefni. Honum hefði þótt þetta spennandi verkefni og því ákveðið að halda samstarfinu við Jónas Inga áfram. Hann sæi eftir því núna.

Saksóknari lagði fram uppskrift af símtali milli Jónasar Inga og Tinds, sem lögregla hleraði, þar sem þeir töluðu um „eldvarnakover". Útskýrði Tindur að þeir hefðu viljað lágmarka áhættuna. Jónas Ingi hefði því notað eldvarnaverkefnið sem yfirskin þegar hann pantaði P-2-NP til að vekja ekki grunsemdir.

bergsteinn@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×