Enski boltinn

Owen tryggði United sigur í ótrúlegum sjö marka borgarslag

Ómar Þorgeirsson skrifar
Michael Owen var hetja United í dag.
Michael Owen var hetja United í dag. Nordic photos/AFP

Það var varamaðurinn Michael Owen sem stal senunni þegar hann skoraði sigurmark Manchester United í 4-3 sigri gegn Manchester City á sjöttu mínútu uppbótartíma í borgarslagnum á Old Trafford í dag.

Darren Fletcher skoraði tvö mörk fyrir United og Craig Bellamy skoraði tvö mörk fyrir City.

Englandsmeistararnir fengu sannkallaða draumabyrjun þar sem Wayne Rooney skoraði fyrsta mark leiksins strax á 2. mínútu. Rooney fékk sendingu frá Patrice Evra og lék lipurlega á tvo varnarmenn City og skoraði með hnitmiðuðu skoti af stuttu færi.

Leikmenn City náðu hins vegar að svara þegar um stundarfjórðungur var liðinn af leiknum. Carlos Tevez, sem fékk óblíðar móttökur frá stuðningsmönnum United, náði þá að vinna návígi við markvörðinn Ben Foster og átti sendingu á Gareth Barry sem skoraði í autt markið. Staðan í hálfleik var 1-1.

United byrjaði síðari hálfleikinn með sama hætti og þann fyrri þar sem Darren Fletcher skoraði með skalla eftir sendingu frá Ryan Giggs.

Sem fyrr tók það City menn ekki langan tíma að jafna og jöfnunarmarkið var stórglæsilegt.

Tevez sendi á Craig Bellamy sem kom sér í fína skotstöðu og smellti boltanum efst í markhornið fjær, óverjandi fyrir Foster.

Þegar líða tók á síðari hálfleikinn fóru leikmenn United að herða tök sín á leiknum og aðeins snilldartilþrif frá Shay Given í marki City komu í veg fyrir að United tæki forystuna á ný.

Given kom þó engum vörnum við þegar Fletcher skoraði sitt annað skallamark í leiknum og þriðja mark United þegar tíu mínútur lifðu leiks. Aftur var það eftir sendingu frá Giggs.

Flest benti til þess að United myndi svo sigla þessu rólega í höfn en Bellamy var ekki búinn að segja sitt síðasta.

Bellamy slapp í gegnum vörn United á 90. mínútu og lék á Foster og skoraði jöfnunarmarkið.

Það var hins vegar enn tími fyrir sigurmark því varamaðurinn Owen, sem var varla búinn að sjást í leiknum, fékk sendingu frá Giggs á sjöttu mínútu uppbótartíma og skoraði sigurmarkið. Ótrúlegur endir á ótrúlegum leik.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×