Lífið

Idol-Siggi hættir keppni

Sigurður M. Þorbergsson
Sigurður M. Þorbergsson
Sigurður Magnús Þorbergsson, Idol-Siggi, hefur afþakkað tólfta sætið í Idol Stjörnuleit en fyrsta beina útsendingin úr Smáralind er í kvöld á Stöð 2. Idol-Siggi segist taka þessa ákvörðun m.a. að tillitsemi við aðra keppendur í Idol Stjörnuleit en hann mun engu að síður taka lagið á stóra sviðinu í kvöld.

„Eftir að hafa velt þessu mikið fyrir mér þá hef ég komist að þeirri niðurstöðu að það sé eðlilegast gagnvart hinum keppendunum að ég dragi mig í hlé," sagði Siggi í samtali við Vísi fyrir stundu. Siggi segist eiginlega hafa farið hjá sér yfir allri þeirri athygli sem hann hefur fengið síðan uppákoman í síðasta Idol-þætti átti sér stað þegar tilkynnt var fyrir mistök að hann væri kominn áfram.

Siggi segir að jafnvel þótt hann hafi þegið 12 sætið í úrslitunum þá hefði hann alltaf verið tvístígandi með það hvort hann ætti að slá til. Ekki einasta sín vegna og fjölskyldu sinnar heldur ekki síður vegna hinna keppendanna og aðdáenda þeirra. „Idolið er frábært tækifæri fyrir þá sem vilja koma sér á framfæri sem söngvarar og ég væri sannarlega til í að láta af mér kveða á þeim vettvangi í framtíðinni."

Siggi segist ætla að fylgjast grannt með keppninni og hefur mikla trú á krökkunum sem komin eru í úrslit. „Það eru frábærir söngvarar þarna inná milli sem eiga klárlega framtíðina fyrir sér. Samt er ég viss að ég hefði átt góðan séns," segir Siggi glottandi.

Þótt Siggi hafi formlega sagt sig úr keppni í Idolinu þá lætur hann sig ekki vanta í kvöld. „Auðvitað mæti ég og læt til mín taka. Ég ætla ekki að láta það tækifæri úr greipum ganga að syngja á þessu stóra sviði í Smáralindinni, með þessu frábæra bandi, í beinni sjónvarpsútsendingu."


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.