Enski boltinn

Hughes kemur Adebayor til varnar

Ómar Þorgeirsson skrifar
Mark Hughes.
Mark Hughes. Nordic photos/AFP

Knattspyrnustjórinn Mark Hughes hjá Manchester City hefur komið framherjanum Emmanuel Adebayor til varnar eftir umdeild atvik sem áttu sér stað í leik City gegn gömlu liðsfélaga Adebayor í Arsenal um helgina.

Adebayor liggur undir ásökunum eftir að hafa stigið á andlit Robin Van Persie og ögrað stuðningsmönnum Arsenal eftir að hann skoraði mark í leiknum.

„Emmanuel þurfti að þola mikið mótlæti á meðan á leiknum stóð en fullyrti við mig að hann hafi ekki ætlað neitt illt í návígi sínu við Van Persie. Dómarinn var líka vel staðsettur í atvikinu og gerði ekkert.

Hvað varðar fagnið þá tapaði hann sér örlítið en hefur beðist afsökunar á framferði sínu og það hlýtur að vera tekið með í reikninginn þegar enska knattspyrnusambandið fer yfir málið," segir Hughes í viðtali á opinberri heimasíðu City.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×