Lífið

Morfís snýst um geim­ferðir

Oddur Sigurðsson spáir háspennu í Háskólabíói í kvöld þegar úrslitin ráðast í ræðukeppni Morfís.
Oddur Sigurðsson spáir háspennu í Háskólabíói í kvöld þegar úrslitin ráðast í ræðukeppni Morfís.

„Umræðuefnið verða geimferðir; Verzlunarskólinn er á móti en Fjölbrautaskólinn á Suðurnesjum er með og þetta verður hörkukeppni,“ segir Oddur Sigurðsson, formaður Morfís. Úrslitin ráðast í þessari vinsælu ræðukeppni framhaldsskólanna í kvöld í stóra sal Háskólabíós, en í þessari keppni hafa margir af helstu ræðuskörungum þjóðarinnar stigið sín fyrstu skref.

Oddur upplýsir að þegar sé næstum uppselt á keppnina sem hefst klukkan átta. Og að sjálfsögðu sé hlaupinn mikill hiti í stríðið sem geisar oft á milli skólanna fyrir úrslitaviðureignina. Þannig hafi einhverjir nemendur Fjölbrautaskólans á Suðurnesjum lokað bílastæði Verzlunarskólans með ísklumpum og fiski.

„Og það má fastlega búast við því að Verslingar borgi fyrir sig með einhverjum hætti,“ segir Oddur en eins og Fréttablaðið greindi frá í fyrra var oft grunnt á því góða milli MH og MR sem þá kepptu í úrslitum og vildu sumir meina að þá hefði orrustan farið aðeins yfir mörkin.

Óhætt er hægt að segja að liðin í úrslitaviðureigninni í ár eigi sér ólíka sögu í þessari keppni. Verzlunarskólinn hefur oft náð prýðilegum árangri en þetta er í fyrsta skipti sem Suðurnesjamenn komast í úrslit í sögu skólans.

Og óhætt er hægt að segja að Morfís-keppnin hafi ekki verið allra í ár því reglunum var breytt fyrir þetta keppnistímabil. Nú gilda stig ekki lengur heldur þarf meirihluti dómara að vera sammála um sigurvegarann.

„Það hafa komið upp þrjú kærumál og margir umdeildir sigrar unnist þannig að þetta verður án nokkurs vafa forvitnilegt í kvöld,“ segir Oddur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.