Enski boltinn

Barry í viðræðum við City

Ómar Þorgeirsson skrifar
Gareth Barry loks á förum frá Aston Villa.
Gareth Barry loks á förum frá Aston Villa. Mynd/NordicphotosGetty

Enska úrvalsdeildarfélagið Aston Villa hefur staðfest að miðjumaðurinn Gareth Barry hafi fengið leyfi til þess að ræða við Manchester City.

Núgildandi samningur Barry við Aston Villa rennur út í lok næsta keppnistímabils en leikmaðurinn hefur fram til þessa ekki verið viljugur að framlengja hann þrátt fyrir ítrekuð boð stjórnar Aston Villa.

Allt leit út fyrir að fararsnið yrði á Barry fyrir síðasta keppnistímabil en þá voru félög á borð við Liverpool á eftir kappanum en Aston Villa verðlagði hann þá á 18 milljónir punda, sem var nóg til þess að félög kældu áhuga sinn á enska landsliðsmanninum.

Barry hefur líst yfir löngun sinni til þess að spila í Meistaradeildinni en Aston Villa varð að láta í minni pokann fyrir Arsenal í baráttunni um það á nýafstaðinni leiktíð. Manchester City náði hins vegar ekki einu sinni að tryggja sér þátttökurétt í UEFA Europa League, líkt og Aston Villa, en peningarnir eru vissulega til staðar í herbúðum City eftir að Sheikh Mansour eignaðist félagið á síðasta ári.

Sky Sports fréttastofan hefur heimildir fyrir því að Barry fari í læknisskoðun hjá City í dag eftir að Aston Villa samþykkti kauptilboð sem nemur um 11 milljónum punda.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×