Enski boltinn

Draumabyrjun Tottenham dugði ekki til að halda sigurgöngunni áfram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney fagnar hér marki sínu sem innsiglaði sigurinn á Tottenham.
Wayne Rooney fagnar hér marki sínu sem innsiglaði sigurinn á Tottenham. Mynd/AFP

Sigurganga Tottenham í ensku úrvalsdeildinni endaði með 1-3 tapi fyrir Englandsmeisturum Manchester United á heimavelli á White Hart Lane í dag en Tottenham hafði unnið fjóra fyrstu leiki sína á tímabilinu. Það dugði ekki fyrir lærisveinana hans Harry Redknapp að komast yfir strax á fyrstu mínútu leiksins því United svaraði með þremur mörkum.

Jermain Defoe skoraði fyrsta mark leiksins strax á fyrstu mínútu en þeir Ryan Giggs (24.mínúta), Anderson (40.) og Wayne Rooney (77.) tryggðu meisturunum góðan sigur. það kom ekki að sök að Paul Scholes fékk sitt annað gula spjald á 58. mínútu og meistararnir spiluðu manni færri síðasta hálftímann.

Manchester United komst með sigrinum upp fyrir Tottenham og Manchester City á betri markatölu og sitja meistararnir núna í 2. sætinu þremur stigum á eftir Chelsea sem hefur unnið alla fimm leiki sína.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×