Innlent

Samfylkingin skuldar okkur ekki neitt

Breki Logason skrifar
Ari Edwald forstjóri 365
Ari Edwald forstjóri 365
Árni Johnsen þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði á opnum fundi í Suðurkjördæmi í gær að Samfylkingin skuldaði Stöð 2 hundrað milljónir króna fyrir sjónvarpsauglýsingar. Þetta sagði Árni á um sjötíu manna fundi og Róbert Marshall sem á sæti á lista Samfylkingarinar gerir að umtalsefni á heimasíðu sinni. Ari Edwald forstjóri 365 sem meðal annars rekur Stöð 2 segir þetta ekki rétt, þarna sé um hrein og klár ósannindi að ræða.

„Samfylkingin skuldar Stöð 2 100 milljónir fyrir sjónvarpsauglýsingar. Fleðulegt bros Árna sneri beint út í sal. Þetta var eins og í leikriti. Menn verða ótrúlega ljótir þegar þeir ljúga," skrifar Róbert Marshall á heimasíðu sína.

Því næst segir hann frá því að þeir Árni hafi tekist á um fullyrðinguna sem Árni hafi haldið blákalt fram að væri sönn. Ari Edwald forstjóri 365 segir þetta ekki rétt hjá þingmanninum.

„Það standa engar skuldir á þá hér í okkar bókum. Ég þekki náttúrulega ekki söguna síðan hér áður fyrr. Jón Ólafsson hefur nú lýst því yfir opinberlega að hann hafi afskrifað kröfu á Samfylkinguna eða einhverja forvera þeirra. En hjá þessu fyrirtæki núna og í síðustu kosningum hefur Samfylkingin ekki hlaðið upp skuldum, ekki frekar en aðrir flokkar, það eru hrein og klár ósannindi," segir Ari Edwald í samtali við fréttastofu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×