Enski boltinn

Frank Lampard tryggði Chelsea enska bikarinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Terry lyftir hér enska bikarnum við fögnuð félaga sinna.
John Terry lyftir hér enska bikarnum við fögnuð félaga sinna. Mynd/AFP

Frank Lampard tryggði Chelsea enska bikarinn með því að skora sigurmarkið í bikarúrslitaleiknum á Wembley í dag. Chelsea vann þar 2-1 sigur á Everton en Everton fengu hálfgerða forgjöf því þeir komust í 1-0 eftir aðeins 25 sekúndur.

Frank Lampard skoraði sigurmarkið á 72. mínútu með flottu langskoti eftir að hafa snúið laglega á varnarmann Everton. Lampard skoraði með vinstri fótar skoti en Tim Howard átti kannski að gera betur í markinu.

Louis Saha kom Everton í 1-0 eftir 25 sekúndur með laglegu vinstri fótar skoti utarlega úr teignum eftir að Chelsea menn náðu ekki að hreinsa frá fyrirgjöf Stephen Pienaar og Marouane Fellaini skallaði boltann til hans.

Didier Drogba jafnaði leikinn á 21. mínútu með frábærum skalla eftir fyrirgjöf frá Florent Florent Malouda frá vinstri. Frank Lampard átti lykilsendingu í sókninni út á Malouda. Drogba var einn í teignum umkringdur fimm varnarmönnum Everton en það skipti engu máli.

Þetta er í fimmta sinn sem Chelsea vinnur enska bikarinn en liðið vann hann einnig 1970, 1997, 2000 og 2007.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×