Innlent

Smíði gæsluvélarinnar gengið ævintýralega vel

MYND/Höskuldur Ólafsson

Ný flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF kemur til landsins þann 9. júlí og er það nokkuð á undan áætlun að því er fram kemur í tikynningu. Smíðin hefur gengið ævintýralega vel.

„Smíði flugvélarinnar hefur gengið ævintýralega vel miðað við að þarna er á ferðinni fullkomnasta eftirlitsflugvél þessarar tegundar í heiminum," segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni. Vélin er af gerðinni Dash-8 Q300 og eru samskonar flugvélar notaðar hjá strandgæslum og eftirlits- og björgunaraðilum víða um heim.

Vélin verður afhent Landhelgisgæslunni til prófana þann 9. júní og er svo áætluð til landsins þann 9. júlí eins og áður segir. „Kaupsamningur var undirritaður í maí 2007 og var samningsverð 32,2 milljónir dollara. Allar áætlanir um tíma og verð hafa staðist fullkomlega. Ef eitthvað er mun verkið verða undir kostnaðaráætlun."

Vélin er smíðuð hjá Bombardier í Kanada en ísetning tæknibúnaðar fer fram hjá Field Aviation í Kanada. Þjálfun á flugvélina er að hefjast og fara fyrstu aðilar utan nú um helgina.

„Notkunarmöguleikar flugvélarinnar til öryggis og löggæslu sem og leitar og björgunar eru nánast ótakmarkaðir," segir ennfremur. „Meðal annars býr vélin yfir öflugri infrarauðri myndavél sem bæði getur tekið myndir frá hlið og beint fram, jafnt að nóttu sem degi. Með þessari tækni er hægt að greina athafnir skipa með ótrúlegri nákvæmni sem og mengun sem þýðir gjörbreytingu í auðlindagæslu og umhverfisvernd. Þá verður umbylting í möguleikum í leit á sjó og landi þar sem þessi tækni nemur umhverfið með hætti sem ekki er til staðar hér á landi í dag. Á sviði almannavarna skapast jafnframt nýir möguleikar við að greina breytingar á landslagi svo sem hæðarlínur í jöklum, eldfjöllum og snjóalögum. Einnig er vélin búin mjög öflugum 360 gráðu radar sem getur greint skip í allt að 200 sjómílna fjarlægð og tegund þeirra í 40 sjómílna fjarlægð," að því er fram kemur.

Að endingu er tekið fram að nýja vélin skapi Íslendingum kost á að fylgjast með hafinu umhverfis Ísland með allt öðrum og nákvæmari hætti en verið hefur. „Til að færa þetta nær má líkja þessu við færslu af ritvél yfir á tölvu," segir í tilkynningunni.

„Þrátt fyrir þetta slæma árferði sem nú er, virðist sem svo að þetta áralanga baráttumál okkar Landhelgisgæslufólks sé að verða að raunveruleika. Hvernig sem notkun á vélinni verður háttað í framtíðinni munu í öllu falli skapast ómældir möguleikar á að geta séð hverju fram fer í íslenskri lögsögu og á hinu geysistóra björgunarsvæði landsins. Með þessari nýju flugvél er einfaldlega um að ræða hreina byltingu í öryggis- löggæslu og eftirliti sem og leit og björgun á Íslandi. Þessi framsýna og stórhuga ákvörðun ríkisstjórnarinnar mun því marka þáttaskil í öryggis og björgunarmálum landsins," segir að lokum og þess getið að þrátt fyrir tímabundnar þrengingar byggir Landhelgisgæslan á traustum grunni og skýrri framtíðarsýn sem staðið verði fast á og byggt ofan á um leið og betur sést til lands.

Fleiri myndir og feril smíðinnar má sjá á heimasíðu Landhelgisgæslunnar á þessari slóð.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×