Enski boltinn

Blackburn vann Chelsea eftir vítaspyrnukeppni

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Drogba fagnar marki sínu í leiknum en hann fagnaði ekki í leikslok.
Drogba fagnar marki sínu í leiknum en hann fagnaði ekki í leikslok.

Blackburn varð seint í kvöld síðasta liðið til þess að komast í undanúrslit enska deildabikarsins. Liðið lagði þá Chelsea í hörkuleik en vítaspyrnukeppni þurfti til að fá sigurvegara í leiknum.

Kalinic kom Blackburn yfir í leiknum en Chelsea svaraði með tveim mörkum frá Drogba og Kalou í upphafi síðari hálfleiks.

Blackburn gafst ekki upp og Brett Emerton jafnaði á 64. mínútu. 2-2 eftir 90 mínútur og því varð að framlengja.

Benni McCarthy kom Blackburn yfir í framlengingunni með marki úr vítaspyrnu. Það var síðan komið fram í uppbótartíma framlengingar er Paolo Ferreira jafnaði leikinn fyrir Chelsea og knúði fram vítaspyrnukeppni.

Í henni var Paul Robinson, markvörður Blackburn, hetjan en hann varði tvær af spyrnum Chelsea.

Hann varði fyrstu spyrnuna frá Michael Ballack og síðustu spyrnuna frá Gael Kakuta en Kakuta hefði getað knúið fram bráðabana hefði hann skorað.

Þessi 18 ára strákur heldur því áfram að vera örlagavaldur hjá Chelsea en það var mál hans sem leiddi til þess að Chelsea mátti ekki versla fyrr en 2011. Í kvöld sá hann svo til þess að Chelsea kemst ekki lengra í þessari keppni.

Blackburn mætir Aston Villa í undanúrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×