Enski boltinn

Wigan fær liðsstyrk frá Hondúras

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hendry Thomas fagnar marki í leik með liði sínu í Hondúras.
Hendry Thomas fagnar marki í leik með liði sínu í Hondúras. Nordic Photos / AFP
Wigan hefur gengið frá samningum við miðvallarleikmanninn Hendry Thomas sem kemur frá Deportivo Olimpia í Hondúras.

Thomas verður því þriðji leikmaðurinn frá því landi sem leikur með félaginu en þeir Wilson Palacios og Maynor Figueroa hafa báðir leikið með félaginu. Palacios var svo í vetur seldur til Tottenham.

Þeir Palacios og Figueroa léiku einnig með Deportivo Olimpia í heimalandinu og því bindur Roberto Martinez, stjóri Wigan, að Thomas muni feta í fótspor hinna nú.

„Allir vita hversu vel þeim Wilson og Maynor hefur gengið í ensku úrvasldeildinni og því engin furða að það hafi verið mikill áhugi á Hendry," sagði Martinez á heimasíðu Wigan.

Til stóð að hann kæmi til félagsins síðastliðið sumar en þá tókst ekki að útvega honum atvinnuleyfi.

„Hann hefur lagt virkilega mikla vinnu á sig undanfarna mánuði til að reyna að fá þessi félagsskipti í gegn og nú hefur sú vinna borið árangur," bætti Martinez við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×