Enski boltinn

Carragher: Þetta eru erfiðir tímar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jamie Carragher í leik með Liverpool.
Jamie Carragher í leik með Liverpool. Nordic Photos / Getty Images
Jamie Carragher segir að sér sárni mjög mikið slæmt gengi Liverpool að undanförnu en liðið hefur tapað sex af síðustu sjö leikjum sínum í öllum keppnum.

Carragher fékk að líta rauða spjaldið í leik Liverpool og Fulham um helgina sem síðarnefnda félagið vann, 3-1.

Liverpool er sem stendur níu stigum á eftir toppliði Chelsea. Liðið féll úr leik í ensku deildabikarkeppninni í síðustu viku og á það á hættu að falla einnig úr leik í Meistaradeild Evrópu ef liðið nær ekki að vinna Lyon á útivelli á miðvikudagskvöldið.

„Þetta eru erfiðir tímar og það sárnar mér mikið," sagði Carragher við enska fjölmiðla. „Þetta er ekki líkt Liverpool. Þetta hefur valdið öllum hjá félaginu miklum vonbrigðum, ekki bara stuðningsmönnunum."

Liverpool vann að vísu góðan sigur á Manchester United um síðustu helgi en sá sigur telur lítið fyrst liðið hefur ekki náð að fylgja sigrinum eftir.

„Við verðum að finna lausnir á okkar vandamálum. Við megum þó ekki vera niðurlútir í lengri tíma því við þurfum að undirbúa okkur fyrir næsta leik."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×