Enski boltinn

Blackburn engin fyrirstaða fyrir United

Ómar Þorgeirsson skrifar
Dimitar Berbatov fagnar glæsilegu marki sínu á Old Trafford í kvöld.
Dimitar Berbatov fagnar glæsilegu marki sínu á Old Trafford í kvöld. Nordic photos/Getty images

Englandsmeistarar Manchester United unnu 2-0 sigur gegn Blackburn á heimavelli sínum í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Framherjarnir Dimitar Berbatov og Wayne Rooney skoruðu mörkin.

United réði lögum og lofum á Old Trafford-leikvanginum í kvöld en mörkin létu standa á sér lengi framan af leik. Staðan var 0-0 eftir fyrri hálfleikinn sem einkenndist af stórsókn United og markvörðurinn Edwin van der sar hafði ekki mikið að gera í markinu hjá United.

Eftir um tíu mínútna leik náði United hins vegar að brjóta ísinn og þar var að verki framherjinn Berbatov. Búlgarinn sýndi snilli sína þegar hann tók við föstu skoti Patrice Evra og afgreiddi boltann í netið með því að klippa hann á lofti með miklum tilþrifum.

United hélt áfram að sækja og varamaðurinn Gabriel Obertan fékk tvö góð marktækifæri til þess að skora en náði ekki að nýta þau. Það var hins vegar framherjinn Rooney sem innsiglaði sigur United með snyrtilegri afgreiðslu eftir góða sendingu frá Anderson.

Blackburn skoraði reyndar mark í uppbótartíma þegar varamaðurinn Nikola Kalinic kom boltanum í netið en markið var ranglega dæmt af. Niðurstaðan var því sem segir 2-0 sigur United.

United skaust upp í annað sæti deildarinnar með sigrinum, tveimur stigum á eftir toppliði Chelsea.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×