Enski boltinn

Erfitt að komast að hjá Guðjóni - ellefu leikmönnum tókst ekki að sanna sig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Crewe fagna hér marki á móti Liverpool í enska deildarbikarnum í fyrra.
Leikmenn Crewe fagna hér marki á móti Liverpool í enska deildarbikarnum í fyrra. Mynd/AFP

Guðjón Þórðarson, stjóri Crewe, ætlar ekki að fá neina meðaljóna til liðsins. Þrátt fyrir að Guðjón hafi ekki mikla peninga milli handanna til leikmannakaupa vill hann aðeins fá til sín leikmenn sem geta orðið byrjunarliðsmenn strax.

Guðjón hefur þegar afþakkað þjónustu ellefu leikmanna sem voru á reynslu hjá honum fyrir tímabilið en enn eru hjá félaginu þrír ungir leikmenn sem vonast eftir að fá samning hjá Crewe.

„Ég get ekki tekið inn leikmenn sem geta kannski hjálpað okkur. Ég þarf að fá leikmenn sem geta hjálpað liðinu strax á morgun," sagði Guðjón í viðtali við Sentinel.

Guðjón hefur gert samning við tvo nýja leikmenn í sumar, Patrick Ada og Mat Mitchel-King, auk þess að hann hefur fengið markvörðinn David Button á sex mánaða láni frá Tottenham.

Crewe leikur sinn fyrsta leik í ensku d-deildinni í dag þegar liðið tekur á móti Dagenham & Redbridge en þetta verður fyrsti leikur félagsins í neðstu deild síðan árið 1993.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×