Innlent

Kvika við Upptyppinga virðist færast nær yfirborði

Jarðskjálftavirkni norðan við Upptyppinga síðustu daga bendir til að kvika færist þar nær yfirborði en áður. Fjórar virkustu eldstöðvar Íslands virðast allar vera að undirbúa gos.

Fimm ár eru liðin frá síðasta eldgosi hérlendis en það var í Grímsvötnum árið 2004. Síðasta Heklugos var fyrir níu árum en það hófst í febrúar árið 2000. Nú eru vísindbendingar um að aftur geti farið að draga til tíðinda, eins og fréttir síðustu daga af Eyjafjallajökli bera með sér.

Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur við Háskóla Íslands, segir kvikusöfnun nú undir virkustu eldstöðvum landsins; Kötlu, Heklu, Grímsvötnum, Öskju og austan við Öskju í Upptyppingum, þar sem kvikuinnskot virðist hafa hafist fyrir tveimur árum. Sú atburðarás haldi áfram.

Kvikusöfnun undir Upptyppingum var fyrst djúpt í jarðskorpunni en jarðhræringar benda til að hún færist nú nær yfirborði. Páll segir að grunnir jarðskjálftar hafi verið norðan Upptyppinga á um sjö kílómetra dýpi og þeir virðist vera ennþá grynnra síðustu daga.

Áformaður er leiðangur í næsta mánuði á Upptyppinga til að mæla svæðið til að fá úr því skorið hvort þar sé mikil kvikusöfnunin á ferðinni eða hvort jarðhræringar skýrist af flekahreyfingum.

Páll segir þetta mjög spennandi atburðarrás en hún sé mjög hæg. Ef kvika sé komin nærri yfirborði sé allavega hægt að segja að hún sé ekki mikil. Ef sú kvika, sem nú sést á hreyfingu, kæmi til yfirborðs yrði það ekki nema lítið eldgos, að mati Páls.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×