Enski boltinn

Kuszczak ósáttur við van der Sar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tomasz Kuszczak í leik með Manchester United.
Tomasz Kuszczak í leik með Manchester United. Nordic Photos / Getty Images

Pólverjinn Tomasz Kuszczak, einn markvarða Manchester United, segir að Edwin van der Sar hjálpi sér lítið þó svo að hann spyrji van der Sar oft ráða.

Kuszczak er nú á sínu fjórða ári hjá United en van der Sar hefur verið aðalmarkvörður United á undanförnum árum.

„Ég verð að vera hreinskilinn og ég er viss um að Edwin mun ekki líka við þetta - en hann hjálpar mér lítið," sagði Kuszczak í samtali við MUTV, sjónvarpsstöð United, eftir því sem fram kemur í breska dagblaðinu The Times í dag.

„Ég hef beðið hann nokkrum sinnum um að gefa mér ráð þar sem hann er reyndari en ég og á fleiri leiki að baki. Ég vil fá að vita hvað ég geri rangt og ég vil einnig fá að læra af öðrum," er haft eftir Kuszczak.

„En ég veit ekki, kannski að Edwin líki ekki við mig. Þú verður að spyrja hann."

Hvort rétt sé haft eftir Kuszczak verður að koma í ljós en víst þykir að Alex Ferguson, stjóri United, verður ekki ánægður með ummæli hans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×