Enski boltinn

Fabregas og Eboue ósáttir með framgöngu Adebayor

Ómar Þorgeirsson skrifar
Emmanuel Adebayor er harðlega gagnrýndur af fyrrum liðsfélögum sínum.
Emmanuel Adebayor er harðlega gagnrýndur af fyrrum liðsfélögum sínum. Nordic photos/AFP

Leikur Manchester City og Arsenal ætlar heldur betur að draga dilk á eftir sér fyrir framherjann Emmanuel Adebayor hjá City því hann virðist vera búinn að mála sig út í horn hjá fleiri aðilum en aganefnd enska knattspyrnusambandsins því fyrrum liðsfélagar hans hjá Arsenal keppast nú um að segja skoðun sína á hegðun hans í leiknum.

Adebayor fékk þriggja leikja bann fyrir að traðka á hausnum á Robin van Persie og fyrirliðinn Cesc Fabregas hjá Arsenal vill meina að hann hafi einnig orðið fyrir barðinu á Adebayor í leiknum.

„Adebayor átti að fá rautt spjald þegar hann tæklaði mig og ég get sýnt ykkur löppina á mér til sönnunar um hversu hættuleg tækling þetta var. Ég var bara heppinn að löppin á mér var í loftinu en ekki á vellinum þegar hann tæklaði mig því þá hefði þetta endað illa fyrir mig. Ég veit ekkert af hverju hann hagaði sér svona," segir Fabregas og miðjumaðurinn Emmanuel Eboue hjá Arsenal tekur í sama streng.

„Ég skil ekkert í Adebayor því við höfum allir alltaf komið vel fram við hann. Hann varð sér í raun til skammar með framgöngu sinni og var ekki góð fyrirmynd fyrir yngri leikmenn með háttalagi sínu í leiknum. Ég er því mjög ánægður með að hann hafi fengið þriggja leikja bann fyrir vikið," segir Eboue.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×