Lífið

Idol-Lísu langar til að semja eigin tónlist

„Mig langar að syngja eins mikið og ég get og jafnvel að semja mína eigin tónlist," segir Guðrún Lísa Einarsdóttir, oftast kölluð Lísa, sem féll úr Idol-söngvakeppninni í undanúrslitaþætti á Stöð 2 í gærkvöldi.

Kynnarnir Simmi og Jói ræddu við Lísu í þætti sínum á Bylgjunni í morgun. Létt var Lísu sem tók úrslitunum ekki illa.

Það verða söngkonurnar Anna Hlín Seculic úr Hafnarfirði og Hrafna Hanna Elísa Herbertsdóttir frá Djúpavogi sem keppa í úrslitaþætti Idolsins næsta föstudag. Þema þáttarins í gærkvöldi voru júrovisjon-lög sem þýddi að keppendurnir þrír sungu lög úr söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Lísa söng lögin Open your Heart og My Number One.

Það virtist koma dómurunum þremur á óvart að Lísa skyldi falla út, enda höfðu þeir gefið henni betri dóma fyrir söng sinn en Hröfnu. Björn Jörundur sagði beinlínis að hann hefði talið að Hrafna myndi detta út, úrslitin hefði því komið sér á óvart.

„Ég þarf að fara að kíkja á þetta allt saman núna," sagði Lísa kímin aðspurð af því hvort að hún hefði umboðsmann, en mágur hennar er sjálfur umboðsmaður Íslands, Einar Bárðarson.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.