Enski boltinn

Ferguson: City-menn eru að springa úr monti

Ómar Þorgeirsson skrifar
Sir Alex Ferguson.
Sir Alex Ferguson. Nordic photos/AFP

Knattspyrnustjórinn Sir Alex Ferguson hjá Englandsmeisturum Manchester United telur að samkeppnin og hatrið á milli United og City sé búið að hækka um nokkur stig eftir öll kaup City í sumar og auglýsingaherferð félagsins þar sem andlit Carlos Tevezar, fyrrum leikmanns United, var notað á skiltum víðs vegar um Manchester-borg.

Ferguson vill jafnframt meina að City-menn séu of montnir miðað við að þeir hafi ekki unnið neitt ennþá og eigi eftir að komast að því hve erfitt það er.

„Því er ekki að neita að samkeppnin á milli félaganna hefur vaxið í sumar eftir að þeir fengu alla þessa leikmenn og fóru svo að auglýsa Tevez sérstaklega. Þeir eru eiginlega bara að springa úr monti með sína sjö framherja eða hvað þeir eru margir.

Eftir allar þessar fjárfestingar ættu þeir náttúrulega að vinna deildina en það gæti orðið þeim erfitt. Það er mjög erfitt að brjótast inn á topp fjögur í deildinni og síðan vitanlega enn erfiðara að hreppa efsta sætið. City hefur fengið fremur auðvelda leiki í byrjun tímabils með tveimur til þremur frekar auðveldum leikjum en við skulum sjá til hvað gerist á næstunni," segir Ferguson í viðtali við bandarísku útvarpsstöðina Sirius XM en United og City eigast við á Old Trafford í hádeginu á sunnudag.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×