Enski boltinn

Jóhann B.: Hefur þýðingu fyrir fólkið í bæjarfélaginu

Elvar Geir Magnússon skrifar
Jóhann B. Guðmundsson.
Jóhann B. Guðmundsson.

Jóhann Birnir Guðmundsson átti flottan leik fyrir Keflavík í kvöld þegar liðið vann 1-0 sigur á grönnum sínum í Grindavík. Bæði lið höfðu ekki að miklu að keppa fyrir þennan leik nema þá stoltinu.

„Leikir Keflavíkur og Grindavíkur hafa alltaf mikla þýðingu," sagði Jóhann eftir leik. „Þó þessi leikur skipti litlu þegar litið er á töfluna þá hefur þetta þýðingu fyrir fólkið í bæjarfélaginu."

„Mér fannst Grindvíkingar góðir í seinni hálfleik og þeir settu smá pressu á okkur. En við vorum betri í fyrri hálfleiknum og náðum að klára þetta," sagði Jóhann.

Tímabilið hefur verið mikil vonbrigði fyrir Keflvíkinga sem töpuðu í undanúrslitum bikarsins á dögunum og höfðu ekki náð sigri í síðustu sjö leikjum áður en kom að þessum.

„Vissulega hefur tímabilið verið mikil vonbrigði. En við höfum orðið fyrir miklum skakkaföllum í sumar. Við verðum bara að einbeita okkur fyrir næsta ár að ná að gíra okkur upp í sama gír og í fyrra," sagði Jóhann.

Jóhann er að jafna sig eftir kinnbeinsbrot og byrjaði leikinn með svarta andlitsgrímu. Hann losaði sig hinsvegar við hana um miðjan fyrri hálfleikinn. „Ég er svona á mörkunum að þurfa að nota hana því það er svo langt síðan ég fór í aðgerðina. Þetta varð betra eftir að ég losnaði við grímuna, þá fór ég að sjá boltann þegar ég var með hann. Ekki bara hluta af honum," sagði Jóhann.

„Í síðustu leikjunum ætlum við að reyna að finna taktinn og hafa gaman að þessu. Það hefur vantað aðeins undanfarið hjá okkur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×