Enski boltinn

Harry Redknapp: Við getum alveg unnið United í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Redknapp og Alex Ferguson á leik liðanna í fyrra.
Harry Redknapp og Alex Ferguson á leik liðanna í fyrra. Mynd/AFP
Harry Redknapp, stjóri Tottenham. býst við knattspyrnuviðburði á White Hart Lane í dag þegar Tottenham tekur á móti Englandsmeisturum Manchester United. Tottenham hefur unnið fjóra fyrstu leiki sína í deildinni og það hefur ekki gert oft á undanförnum árum að Spurs er ofar í töflunni þegar þessi lið mætasts.

„Það er möguleiki á að enda meðal fjögurra efstu liðanna og við stefnum þangað. Það er kominn tími á að fá nýtt lið þangað inn og af hverju ekki Tottenham," sagði Redknapp.

„Við mætum Manchester United og Chelsea í næstu tveimur leikjum og við mætum fullir sjálfstrausts í þá leiki því að við höfum spilað hörku leiki á móti öllum liðum í deildinni síðan að ég kom hingað. Við getum alveg unnið United í dag," sagði Redknapp en undir hans stjórn hefur Spurs-liðið unnið Liverpool og Chelsea auk þess að gera jafntefli við Arsenal og Manchester United.

Redknapp segir að Tottenham-liðið hafi staðið sig vel á stóru prófi sem var að mæta Hull eftir að hafa unnið Liverpool í fyrstu umferðinni. „Hull-leikurinn var stórt próf fyrir okkur því þetta var dæmigerður leikur fyrir Tottenham að fá skell. Við fórum hinsvegar þangað, skoruðum fimm mörk og vorum frábærir," sagði Redknapp.

Leikur Tottenham og Manchester United hefst klukkan 16.30 að íslenskum tíma en Tottenham mun þar reyna að vinna sinn frysta leik á United í heilum nítján leikjum í öllum keppnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×