Enski boltinn

Kinnear og N'Zogbia í hár saman

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Charles N'Zogbia, leikmaður Newcastle.
Charles N'Zogbia, leikmaður Newcastle. Nordic Photos / Getty Images

Joe Kinnear hefur sakað Charles N'Zogbia um að nýta sér mistök sem hann gerði til þess að reyna að koma sér frá Newcastle.

Kinnear gerðist sekur um að bera fram nafn N'Zogbia vitlaust nokkrum sinnum í viðtali eftir að Newcastle tapaði fyrir Manchester City á miðvikudagskvöldið.

Umboðsmaður N'Zogbia var mjög reiður út af þessu og N'Zogbia mun sjálfur hafa sagt að hann ætli aldrei aftur að spila fyrir Newcastle á meðan að Kinnear væri við stjórnvölinn.

„Því miður er þetta bara sorgleg tilraun til þess að reyna að koma sér í burtu frá félaginu," sagði Kinnear um málið. „OK, ég mismælti mig aðeins. Ef ég ætti pund fyrir hvert skipti sem ég hef borið nafn leikmanns vitlaust fram væri ég ríkur maður í dag."

Téður umboðsmaður sagði hins vegar í viðtali að það væri Kinnear sjálfur sem vildi losna við N'Zogbia sem vildi gjarnan vera áfram í herbúðum Newcastle.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×