Enski boltinn

Alex Ferguson: Var hann rekinn útaf af því að hann heitir Paul Scholes

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Alex Ferguson, stjóri Manchester United. Mynd/AFP

Alex Ferguson, stjóri Manchester United, sagði að sitt lið hafi staðist stórt próf á móti Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í dag. United lenti 0-1 undir á útivelli eftir aðeins eina mínútu og spilaði manni færri síðasta hálftíma leiksins. United vann leikinn engu að síður 3-1.

„Við vissum að þetta yrði erfiður leikur. Tottenham er í frábæru formi og þeir byrjuðu þennan leik frábærlega. Defoe afgreiddi boltann glæsilega en það voru ennþá 90 mínútur eftir af leiknum," sagði Alex Ferguson sem sagði að sitt lið hafi sýnt mikla yfirvegun og komið sér aftur inn í leikinn.

„Markið hans Rooney kom á frábærum tíma og það drap leikinn. Við höfðum verið undir pressu enda bara tíu eftir á vellinum. Markið hans tryggði sigurinn," sagði Ferguson sem var mjög óánægður með rauða spjaldið sem Paul Scholes fékk fyrir sitt annað gula spjald á 58. mínútu.

„Það var skelfileg ákvörðun að reka Scoles útaf og þetta var rangur dómur. Scholes átti ekki að fá rautt spjaldið því ég er búinn að skoða þetta tvisvar á myndbandi og sé ekkert athugavert. Kannski var hann rekinn útaf af því að hann heitir Paul Scholes," sagði Ferguson ósáttur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×