Leikmenn Glasgow Celtic voru allt annað en sáttir með leikþátt framherjans króatíska Eduardo da Silva hjá Arsenal í seinni leik liðanna í forkeppni Meistaradeildarinnar á Emirates-leikvellinum í gærkvöld.
Eduardo fiskaði víti þegar hann lét sig falla með tilþrifum eftir tæplega hálftíma leik og skoraði svo sjálfur úr vítaspyrnunni.
Arsenal vann leikinn að lokum 3-1 og einvígið samanlagt 5-1 en leikmenn Celtic hafa samt kallað eftir því að Eduardo verði dæmdur í leikbann fyrir tilburði sína.
„Þetta var klárlega ekki vítaspyrna og við vorum allir mjög ósáttir með það sem Eduardo gerði en því miður er þetta hluti af fótbolta núna. Það breytir því ekki að hann á skilið að fá leikbann fyrir vikið," sagði Massimo Donati miðjumaður Celtic í leikslok í gær og stjórnarformaður skoska knattspyrnusambandsins hefur tekið í sama streng.
„Við hjá skoska knattspyrnusambandinu höfum reynt að taka á svona málum hjá okkur og við búumst við því að stjórn UEFA geri slíkt hið sama," er haft eftir stjórnarformanninum Gordon Smith.
Fordæmi er fyrir því að leikmenn séu dæmdir í leikbönn fyrir leikaraskap ef þeir hafa sloppið með refsingu í leiknum sjálfum.
Framherjinn Saulius Mikoliunas hjá landsliði Litháen fékk til að mynda tveggja leikja bann fyrir leikaraskap sem varð til þess að hann fékk vítaspyrnu dæmda í landsleik á móti Skotum árið 2007.