Enski boltinn

Manchester United upp að hlið Chelsea á toppnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nemanja Vidic fagnar marki sínu í kvöld.
Nemanja Vidic fagnar marki sínu í kvöld. Mynd/AFP
Manchester United þurfti ekki mikið að hafa fyrir því að vinna varalið Wolves í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. United vann sannfærandi 3-0 sigur og náði Chelsea að stigum í efsta sæti deildarinnar.

Wayne Rooney skoraði fyrsta markið úr vítaspyrnu sem var dæmd fyrir hendi, Nemanja Vidic kom United í 2-0 með skalla eftir hornspyrnu Darron Gibson og Antonio Valencia skoraði síðan þriðja markið eftir sendingu frá Dimitar Berbatov.

Manchester United og Chelsea eru núna jöfn að stigum en Chelsea er með fjögur mörk á United í markatölu auk þess að eiga leik inni.

Mick McCarthy virtist hreinlega gefa leikinn fyrirfram með því að tefla fram algjöru varaliði en hann gerði tíu breytingar á liði Wiolves sem vann Tottenham um síðustu helgi. Það var bara markvörðurinn Marcus Hahnemann sem hélt sæti sínu.

Grétar Rafn Steinsson og félagar í Bolton unnu mikilvægan 3-1 sigur á West Ham í botnbaráttunni en með þessum sigri komst liðið upp fyrir West Ham og upp úr fallsæti. Grétar Rafn spilaði allan leikinn í hægri bakverðinum.

Cameron Jerome skoraði bæði mörk Birmingham sem setti nýtt félagsmet með því að vinna sinn fimmta leik í röð þegar liðið vann Blackburn 2-1. Birmingaham fór upp í 6. sæti og upp fyrir bæði Manchester City og Liverpool sem er nú komið niður í 8. sæti deildarinnar.

Aston Villa komst upp í þriðja sætið með 2-0 útisigri á Sunderland en strákarnir hans Steve Bruce eru eitthvað að gefa eftir. Sunderlan hefur aðeins unnið einn af síðustu sjö leikjum sínum eða síðan að liðið vann 1-0 sigur á Liverpool á sundboltamarkinu fræga.

Úrslit og markaskorarar í ensku úrvalsdeildinni í kvöld:

Birmingham-Blackburn 2-1

1-0 Cameron Jerome (12.), 2-0 Cameron Jerome (48.), 2-1 Ryan Nelsen (69.)

Bolton-West Ham 3-1

1-0 Chung-Yong Lee (64.), 1-1 Alessandro Diamanti (69.), 2-1 Ivan Klasnic (77.), 3-1 Gary Cahill (88.)

Man Utd-Wolves 3-0

1-0 Wayne Rooney, víti (30.), 2-0 Nemanja Vidic (43.), 3-0 Antonoi Valencia (66.)

Sunderland-Aston Villa 0-2

0-1 Emile Heskey (24.), 0-2 James Milner (61) 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×