Enski boltinn

Carvalho: Við erum betri en við vorum 2005

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ricardo Carvalho, miðvörður Chelsea, fórnar sér alltaf í leikjum liðsins.
Ricardo Carvalho, miðvörður Chelsea, fórnar sér alltaf í leikjum liðsins. Mynd/AFP
Ricardo Carvalho, portúgalski miðvörðurinn hjá Chelsea, segir Chelsea-liðið í dag vera betra en það sem vann enska meistaratitilinn í fyrsta sinn í fimmtíu ár vorið 2005. Chelsea er með fimm stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og hefur aðeins fengið á sig átta mörk í fjórtán deildarleikjum.

„Eins og við erum að spila núna þá erum við betri en við vorum á fyrsta árinu hans Mourinho. Við vorum þá samheldnir og baráttuglaðir en núna eru kannski meiri hæfileikar í liðinu. Við erum allavega með öðruvísi leikmenn og spilum annað leikkerfi," sagði Ricardo Carvalho.

Jose Mourinho stýrði Chelsea-liðinu fyrir fimm árum þegar liðið tapaði aðeins einum leik af 38 og fékk aðeins fimmtán mörk á sig.

„Við erum að spila vel, erum ekki að fá á okkur mörk og erum einir á toppnum. Svo er Portúgal komið á HM þannig að lífið hjá mér getur ekki verið betra," sagði Carvalho.

Chelsea heimsækir Manchester City á laugardaginn. „Við erum á góðri siglingu og hefur unnið erfiða útileiki að undanförnu. Það kæmi sér mjög vel fyrir okkur að taka með okkur stigin frá Manchester," sagði Carvalho.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×