Enski boltinn

Redknapp þarf að selja áður en hann kaupir

Tottenham tapaði mikið á viðskiptum sínum með Jermain Defoe
Tottenham tapaði mikið á viðskiptum sínum með Jermain Defoe NordicPhotos/GettyImages

Harry Redknapp, knattspyrnustjóri Tottenham, verður að selja leikmenn til að fjármagna fyrirhuguð leikmannakaup fyrir næsta tímabil í ensku úrvalsdeildinni.

Fá félög á Englandi hafa eytt öðrum eins upphæðum og Tottenham til leikmannakaupa undanfarin ár en árangurinn hefur látið á sér standa.

Harry Redknapp ætlar sér stóra hluti með Tottenham eftir að hafa bjargað liðinu frá falli í vor og rúmlega það, en áform hans um að styrkja hópinn gætu orðið háð því hvað hann verður duglegur að losa sig við leikmenn í sumar.

Redknapp líður fyrir fáránleg kaup sem félagið hefur gert á síðustu misserum. Nægir að nefna menn eins og Darren Bent (17 milljónir punda) og David Bentley (15 milljónir punda) sem kemst ekki einu sinni í liðið.

Þá hjálpar það lítið þegar menn stunda viðskipti eins og þau sem félagið gerði með framherjann Jermain Defoe, sem seldur var til Portsmouth á 9 milljónir punda og keyptur til baka á hátt í 16 milljónir ári síðar.

"Við erum þegar búnir að eyða öllum okkar peningum til að halda félaginu í úrvalsdeildinni. Við værum til í að bæta við okkur leikmönnum í sumar og ég hef nokkra í huga, en ég þarf að afla mér fjár til að kaupa þá. Við notuðum peningana sem við höfðum til að kaupa Robbie Keane og Wilson Palacios til að halda sæti okkar í deildinni," sagði Redknapp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×