Enski boltinn

Ferill Hargreaves í hættu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Owen Hargreaves.
Owen Hargreaves. Nordic Photos/Getty Images

Meiðsli Owen Hargreaves eru svo alvarleg að hann gæti neyðst til þess að leggja skóna á hilluna á næstu tveim árum fari hnén ekki að styrkjast.

Miðjumaðurinn hefur þegar farið í tvær aðgerðir á hnjánum en verkurinn er þrátt fyrir það enn til staðar. Staðan er svo slæm að United er ekki búið að setja neina tímasetningu á hvenær hann getur komið til baka.

Hargreaves hefur aðeins verið 25 sinnum í byrjunarliði United síðan hann kom til félagsins frá FC Bayern fyrir 17 milljónir punda í júlí árið 2007. Hann hefur ekkert leikið síðan 21. september í fyrra.

Hann fór í aðgerð á hægra hnénu í nóvember en því vinstra í janúar. Það var hinn virti Bandaríkjamaður, Richard Steadman, sem skar Hargreaves upp en þeir Alan Shearer, Michael Owen og Ruud Van Nistelrooy hafa einnig lagt undir hnífinn hjá honum.

Ferguson sagði fyrir nokkru síðan að Hagreaves yrði klár fyrir byrjun næsta tímabils en líkurnar á því eru taldar vera afar litlar núna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×