Enski boltinn

Rafael Benitez: Pepe Reina er einn besti markvörður heims

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pepe Reina er frábær markvörður.
Pepe Reina er frábær markvörður. Mynd/AFP

Spænski markvörðurinn Pepe Reina hjá Liverpool átti flottan leik þegar Liverpool vann 2-0 sigur á Everton á Goodson Park í Merseyside-borgarslagnum í gær. Reina bjargaði meðal annars sínum mönnum með því að verja tvisvar í röð þegar Everton menn virtust vera að jafna leikinn í seinni hálfleik.

Reina varð fyrst skalla frá Tim Cahill og svo aftur frá Marouane Fellaini þegar hann reyndi að fylgja á eftir. Báðir stjórarnir töluðu um að þessi stórkostlega markvarsla hafi verið úrslitastund leiksins.

„Við vissum að hann væri góður markvörður þegar við sömdum við hann og hann hefur verið að bæta sig hjá okkur," sagði Rafael Benitez, stjóri Liverpool.

„Xavi Valero, markvarðaþjálfarinn okkar, er að vinna mjög gott starf með hann og hann er að bæta sig á hverjum degi. Að mínu mati er hann einn besti markvörður heims og hann sýndi af hverju á móti Everton," sagði Rafael Benitez.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×