Enski boltinn

Forlán: Ferguson sparkaði mér fyrir að vera ekki í réttum skóm

Ómar Þorgeirsson skrifar
Diego Forlán.
Diego Forlán. Nordic photos/AFP

Framherjinn Diego Forlán hjá Atletico Madrid fullyrðir að knattspyrnustjórinn Sir Alex Ferguson hafi látið hann fara á sínum tíma frá Manchester United fyrir að hafa ekki þegið ráð hans um skóbúnað fyrir leik gegn Chelsea.

„Ferguson kom að tali við mig fyrir umræddan leik og ráðlagði mér að vera í skóm með löngum skrúfutökkum og ég var sammála honum en fór einhverra hluta vegna ekki að ráðum hans.

Ég rann svo á rassinn í upplögðu marktækifæri í leiknum og eftir leikinn dreif ég mig inn í klefa og ætlaði að skipta í rétta skó en þá greip Ferguson mig glóðvogann.

Hann tók skóna mína og henti þeim og þetta reyndist vera minn síðasti leikur fyrir Manchester United," segir Forlán í nýlegu viðtali við The Guardian.

Forlán kvað hann og Ferguson þó vera búna að grafa stríðsöxina núna og að Skotinn hefði leitað til hans nokkrum sinnum um ráðleggingar varðandi leikmenn frá Suður-Ameríku.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×