Innlent

Gefur út veiðiheimildir fyrir hrefnur og langreyðar

Einar K. Guðfinnsson
Einar K. Guðfinnsson

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur í dag gefið út reglugerð um veiðar á hrefnu og langreyði á árunum 2009, 2010, 2011, 2012 og 2013. Leyfilegur heildarafli skal nema þeim fjölda dýra sem kveðið er á um í veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar. Heimilt er að flytja allt að 20% af veiðiheimildum hvers árs yfir á næsta ár á eftir.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Þar segir ennfremur að veiðar á langreyði hafi hafist í atvinnuskyni haustið 2006, en þær hafi legið niðri síðan vegna óvissu um sölu afurða.

„Nú hefur þeirri óvissu verið eytt. Veiðar á hrefnu í vísindaskyni hófust árið 2003 og lauk árið 2007. Alls voru veidd 200 dýr. Veiðar á hrefnu í atvinnuskyni hófust árið 2006 og hafa verið stundaðar síðan. Alls hafa 46 dýr verið veidd í atvinnuskyni og afurðirnar að langmestu leyti farið á innlendan markað. Á þessum tíma hafa því alls verið veiddar 246 hrefnur.

Leyfi til veiða á hrefnu á árunum 2009-2013 skal veita þeim íslensku skipum sem eru í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila sem hafa stundað hrefnuveiðar í atvinnuskyni á árunum 2006-2008 eða félaga sem þeir hafa stofnað um slíka útgerð. Einnig er heimilt að veita leyfi þeim einstaklingum eða lögaðilum sem að mati ráðherra hafa sambærilega reynslu af útgerð á hrefnuveiðum í atvinnuskyni. Eingöngu þeim skipum sem sérútbúin eru til veiða á stórhvölum er heimilt að taka þátt í veiðum á langreyði árin 2009, 2010, 2011, 2012 og 2013.

Sú ákvörðun að veiðiheimildir séu til 5 ára er í samræmi við almenna venju innan Alþjóðahvalveiðiráðsins. Þar eru veiðiheimildir, t.d. veiðiheimildir Bandaríkjanna, jafnan ákveðnar til 5 ára í senn."

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.