Enski boltinn

Redknapp ætlar ekki að ná í Campbell

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Harry Redknapp, stjóri Tottenham.
Harry Redknapp, stjóri Tottenham. Nordic Photos / Getty Images

Harry Redknapp hefur útilokað að Tottenham ætli að freista þess að fá Sol Campbell til liðs við félagið en sá síðarnefndi hætti hjá Notts County í vikunni.

Campbell lék sinn fyrsta leik með Notts County í ensku D-deildinni um helgina og fór fram á að vera leystur undan fimm ára samningi sínum við félagið eftir leikinn.

Redknapp og Campbell unnu saman hjá Portsmouth en Redknapp er nú stjóri Tottenham og sagður mikill aðdáandi Campbell.

„Ég sagði í sumar að ef ég væri knattspyrnustjóri einhvers annars klúbbs en Tottenham myndi ég reyna að fá Sol Campbell. Þetta á enn við í dag. Það er enginn möguleiki á því að Sol muni spila með Tottenham á nýjan leik," skrifaði Redknapp í dálki sínum sem birtist reglulega í The Sun.

Campbell lék lengi með Tottenham á sínum tíma en féll í ónáð hjá stuðningsmönnum félagsins þegar hann samdi við erkifjendurna í Arsenal.

Campbell má ekki ganga til liðs við félag í ensku úrvalsdeildinni fyrr en félagaskiptaglugginn í janúar þar sem hann var samningsbundinn Notts County þegar að síðasta félagaskiptaglugga lauk, um síðustu mánaðamót.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×