Lífið

Vælið haldið með prompi og prakt í Háskólabíói

Egill Ásbjarnarson skrifar
Vælið hefur aldrei verið flottara en í ár.
Vælið hefur aldrei verið flottara en í ár.
Vælið, söngkeppni Verzlunarskóla Íslands var haldið með pompi og prakt föstudaginn 13. nóvember. Miðasala hófst strax á mánudeginum og seldist upp á miðvikudeginum. Færri komust því að en vildu og heppnaðist þetta kvöld frábærlega hjá skemmtinefnd nemendafélagsins sem stendur að atburðinum.

Þrettán atriði stigu á stokk og spönnuðu hin ýmsu svið tónlistar, allt frá rappi upp í tilfingingaþrungið rokk. Keppnin heppnaðist einkar vel og ljóst er að það er nóg af hæfileikríku tónlistarfólki innan veggja Verzlunarskólans. Hallfríður Þóra Tryggvadóttir fór með sigur af hólmi en hún flutti lagið Dog Days með Florence and the Machine.

Að sögn Daníels Takefusa, formanns skemmtinefndar, tókst þetta einkar vel: „Undirbúningsvinnan hófst strax að kosningum loknum en álagstímabilið sjálft fyrir mánuði síðan. Þetta fór allt eins og best var á kosið þó svo að Daníel Ágúst komst ekki í dómnefnd vegna veikinda en Felix Bergsson hljóp í skarðið svo allt fór vel að lokum."

Meðan dómarar réðu ráðum sínum steig uppistandsflokkurinn Mið Ísland á svið og skemmti Verzlingum. Flott Væl að baki og skemmtinefnd á hrós skilið fyrir frábæra skemmtun.



Þessi frétt er skrifuð af fulltrúa Verzló fyrir Skólalífið á Vísi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×